14 Desember 2015 08:52

Fremur fá stór verkefni komu upp í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi í síðustu viku.  Þess í stað gafst lögreglumönnum færi á að vinna úr uppsöfnuðum verkefnum, stunda aukið eftirlit og sinna birtingum.  Samt sem áður er það ekki svo að ekki hafi verið tilkynnt um brot á lögum og reglum.  Má þar nefna að númeraplötum var stolið af bifreið sem stóð við Krossanesbryggju á Höfn í Hornafirði.

Í Njálsbúð var ungur maður sleginn í andlitið um klukkan tvö aðfaranótt laugardags.  Í tengslum við það mál lýsir lögreglan á Suðurlandi eftir vitnum að þeirri líkamsárás.  Aðdragandi árásarinnar mun hafa verið sá að ungi maðurinn var að koma af snyrtingunni þegar hann rakst utan í mann sem brást illa við.  Þriðja manninn bar að sem sló unga manninn eitt högg í andlitið og lét sig svo hverfa.

Á fimmta tímanum að morgni sunnudags komu lögreglumenn að veitingastað á Selfossi þar sem innandyra voru um 50 manns en lokaður bar. Veitingastaðurinn hafði ekki leyfi til að hafa opið lengur en til klukkan 03:00.

Á föstudagskvöl rann maður til í hálku og datt í Hveragerði. Talið var að hann hefði öklabrotnað.  Þar sem enginn sjúkrabifreið var tiltæk á þeirri stundu sáu lögreglumenn um að flytja manninn á Heilsugæslustöðina á Selfossi.

Ekið var á hægra afturhorn hvítrar Chverolet Captiva bifreiðar um klukkan 12:00 í gær, sunnudag.  Bifreiðin stóð við Álftarima 30 á Selfossi.  Lögreglan biður þann sem kom þar við sögu að gefa sig fram hjá lögreglu eins vitni sem kunna að hafa séð aðdraganda óhappsins. Sími lögreglu er 444 2000 eða 444 2010.

Tveir ökumenn voru kærðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir ölvunarakstur.