27 Apríl 2012 12:00

 Lögreglan á Suðurnesjum hafði í nótt sem leið afskipti af karlmanni  á fertugsaldri sem grunaður var um vörslu fíkniefna. Þegar maðurinn varð lögreglumannanna var tók hann á sprett eftir göngustíg, en einn lögreglumannanna hljóp hann uppi og var hann handtekinn og færður á lögreglustöð. Fíkniefnahundurinn Ella var síðan látin fara sömu leið og maðurinn hafði hlaupið. Þar fannst poki með neysluskammti af efni sem talið er vera kannabisefni, sem maðurinn var talinn hafa hent frá sér á hlaupunum. Hann játaði brot sitt og var látinn laus að því loknu.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800 5005 þar sem hægt er að koma gjaldfrjálst á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál undir nafnleynd.

Brotist inn í hvíldaraðstöðu skotmanna

Brotist var inn í gámahúss á skotsvæði Keflavíkur í Höfnum í fyrradag. Þar hafa skotmenn hvíldaraðstöðu. Rúða var brotin og farið inn með þeim hætti. Sá sem þarna var á ferðinni stal sjö til átta þúsund krónum í skiptimynt. Þegar lögreglan á Suðurnesjum kom á staðinn kom í ljós að hinn óboðni gestur hafði skorið sig talsvert við innbrotið því blóð var á vettvangi og sjúkrakassi opinn.

Þá var, í vikunni,  stolið 60 til 70 lítrum af olíu af bifreið sem stóð á bak  við húsnæði Atafls á Keflavíkurflugvelli. Loks var tilkynnt um stuld á blárri og svartri kerru í Keflavík annars vegar og á hjólkoppum undan bifreið  í Grindavík hins vegar. Lögreglan á Suðurnesjum biður þá sem geta veitt upplýsingar um þessi mál að hafa samband í síma 420-1800.

Tvö dekk sprungu á einkavél í lendingu

Það óhapp varð í vikunni að tvö dekk sprungu á einkavél sem var að lenda á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða tveggja hreyfla skrúfuvél með sæti fyrir 76 farþega. Engir farþegar voru um borð heldur einungis tveir flugmenn.  Vélar af þessari gerð eru með samtals fimm hjól, nefhjól og svo tvö undir hvorum væng. Reyndist vera sprungið á báðum vænghjólum hægra megin, þannig að flugmennirnir urðu að stöðva vélina við brautarmót á flugvellinum áður en þeir gátu ekið henni í stæði. Þeir greindu lögreglunni á Suðurnesnjum frá því að þeir hefðu verið að koma frá Goose Bay í Kanada og væru að ferja vélina til Finnlands. Við flugtak í Goose Bay hefði verið mikill krapi og bleyta á flugbrautinni, sem augljóslega hefði farið inn í hjólabúnaðinn og frosið þar á leiðinni til Íslands með framangreindum afleiðingum. Slökkvilið mætti á vettvang og flugturni og flugslysanefnd var kynnt málið.

Neyðarlending með veikan farþega

Lenda þurfti flugvél frá Swissair  á Keflavíkurflugvelli í gær vegna veikinda farþega. Vélin var á leið til San Francisco í Bandaríkjunum. Farþeginn hafði fengið aðsvif og var nánast rænulaus. Hann var tekinn frá borði og fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en vélinni að því búnu flogið áfram til áfangastaðar.