30 Október 2009 12:00

Umferðarmálin voru nokkuð í brennidepli á fundi lögreglunnar og lykilfólks úr Hlíðunum sem haldinn var í félags- og þjónustumiðstöðinni í Bólstaðarhlíð 43 í gær. Íbúarnir hafa nokkrar áhyggjur af hraðakstri og telja að ökumenn þurfi að sýna meiri aðgát, sérstaklega við skólana í hverfinu. Einnig var kvartað undan bílum sem er lagt illa eða ólöglega og gera gangandi vegfarendum erfitt fyrir. Ástandið í umferðarmálum er þó fjarri því að vera alslæmt í Hlíðunum eins og kom fram í máli Kristjáns Ólafs Guðnasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns og yfirmanns umferðardeilar. Umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað og á það líka við um Hlíðarnar. Áhyggjur af hraðakstri eru hinsvegar réttmætar eins og hraðamælingar lögreglunnar hafa sýnt en Hlíðarnar skera sig samt á engan hátt úr hvað það varðar.

Margt fleira var rætt á fundinum, m.a. veggjakrot og eftirlitsmyndavélar, sem var hinn líflegasti en hann sóttu 25-30 manns. Aðaltilgangur hans var að fara yfir þróun brota í Hlíðunum undanfarin ár en lögreglan hefur haft þennan háttinn á síðustu árin og fundar árlega með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu. Í gær var röðin semsagt komin að Hlíðunum en það var Haraldur Sigurðsson lögreglufulltrúi sem fór yfir tölfræðina en hana má nálgast í heild sinn með því að smella hér. Stöðvarstjóri á lögreglustöð 1, en hverfið heyrir undir hana, er Árni Vigfússon aðstoðaryfirlögregluþjónn. Árni fór yfir helstu breytingarnar sem hafa átt sér stað hjá lögreglunni undanfarið en allar miða þær að því að bæta löggæsluna með einum eða öðrum hætti.

Fundarmönnum var einnig kynnt könnun sem gerð var í vor og segir frá reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri fór yfir helstu niðurstöðurnar en í könnuninni kemur m.a. fram að íbúar í Hlíðunum eru almennt þeirrar skoðunar að lögreglan skili góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í hverfinu. Hátt í 90% voru þeirrar skoðunar. Þegar spurt var um aðgengi að lögreglunni töldu rúmlega 80% íbúa í Hlíðunum að það væri frekar eða mjög aðgengilegt. Margt fleira forvitnilegt kom fram í þessari könnun en hana má skoða með því að smella hér.