22 Nóvember 2007 12:00

Þróun mála í Árbæ, Grafarholti og Norðlingaholti horfir að flestu leyti til betri vegar þegar afbrot eru annars vegar. Þetta kom fram á fjölmennum fundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti með fulltrúum hverfanna sem haldinn var í Orkuveituhúsinu í gær. Þar kom m.a. fram að innbrotum hefur fækkað hlutfallslega á svæðinu öllu þegar tölfræði áranna 2005 og 2006 er skoðuð. Á fundinum var einnig fjallað ítarlega um umferðarmál en mikil umferð er á stofnbrautum á svæðinu. Þar má nefna Vesturlandsveg, Suðurlandsveg og Höfðabakka en nokkuð er um umferðaróhöpp á þessum götum sem skera sig úr hvað þetta varðar.

Fundarmenn voru almennt mjög sáttir við störf lögreglunnar í hverfunum þremur og þá ekki síst er lítur að unglingum. Hópamyndanir virðast úr sögunni en það er nokkur breyting frá því sem áður var. Einn fulltrúi lögreglunnar hafði á orði að nú sæist ekki svo mikið sem einn unglingur með sleikipinna á föstudagskvöldum. Fundarmenn lýstu yfir ánægju með athvarfsvaktir og telja þær skila góðum árangri. Rætt var um nágrannavörslu og var fulltrúum íbúanna leiðbeint í þeim efnum. Þá kom einnig fram sú skemmtilega hugmynd að útvíkka foreldrarölt og fá t.d. eldri borgara til þátttöku. Með því yrði til svokallað hverfisrölt sem kæmi öllum til góða. Fróðlegt verður að sjá hvort hverfisrölt verður að veruleika en lögreglan áformar að halda opinn íbúafund síðar í vetur og þá kann þessi hugmynd að verða rædd frekar.

Heimir Ríkarðsson svæðisstjóri og Jóhann Davíðsson hverfislögreglumaður.