27 Október 2007 12:00

Lögreglunni á Akureyri barst tilkynning um klukkan 06:30 í morgun um mann sem að hafði verið stunginn í heimahúsi á Akureyri.

Þegar lögregla kom á staðinn kom í ljós að tveir aðilar höfðu hlotið stungusár í öxl en þrír aðrir voru með minni áverka. Lögreglan fékk lýsingu á árásarmanninum, sem er tvítugur að aldri, og var hann handtekinn stuttu síðar á heimili sínu grunaður um að hafa veitt hinum slösuðu áverkana. Komið höfðu upp deilur í samkvæmi í heimahúsi sem að leiddu til átaka með fyrrgreindum afleiðingum.

Hinir slösuðu, sem eru á aldrinum 17-23 ára, voru fluttir á slysadeild Sjúkrahúss Akureyrar til aðhlynningar og einn þurfti að gangast undir aðgerð vegna stungusárs á öxl.

Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Akureyri.