18 Febrúar 2013 12:00

Lögreglunni á Suðurnesjum barst í fyrrinótt tilkynning þess efnis að tveir menn væru að gera það að leik sínum að hoppa á bíla fyrir utan skemmtistað í umdæminu. Eftir að mennirnir, sem eru um og yfir tvítugt, voru búnir að hoppa á nokkra bíla kom að því að annar þeirra braut framrúðu bifreiðar í látunum. Lögregla ræddi við mennina og tjáði þeim sem braut rúðuna að hann yrði að gjalda fyrir gjörðir sínar. Jafnframt að þeir skyldu eyða orkunni í eitthvað annað og nytsamlegra í framtíðinni.

Þá barst lögreglu önnur tilkynning um að gengið hefði verið ofan á bifreið og sáust skóför eftir þann einstakling á þaki bílsins.

Sinnti börnum og hafnaði á umferðareyju

Ökumaður, sem leit aftur fyrir sig til að sinna börnum í aftursæti bifreiðar sinnar um helgina endaði aksturinn á umferðareyju í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Engin slys urðu á fólki.

Annar ökumaður, sem var á ferðinni Reykjanesbraut, ók á ljósastaur þegar bifreið hans lenti í möl í vegkantinum. Hafnaði bifreiðin í kjölfarið utan vegar. Öryggispúðar í henni sprungu út við áreksturinn. Ökumaðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar.

Fjórir í fíkniefnaakstri

Lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina fjóra ökumenn sem allir óku undir áhrifum fíkniefna. Um var að ræða þrjá karlmenn og eina konu. Farið var í húsleit á heimili eins mannsins. Þar fundust loftskammbyssa og ummerki um fíkniefnaneyslu. Sýnatökur á lögreglustöð staðfestu að allir ökumennirnir höfðu neytt kannabisefna og einn kókaíns að auki. Fólkið er á aldrinum milli tvítugs og þrítugs.

Maður á reiðhjóli fyrir bíl

Það óhapp varð í Keflavík í morgun að karlmaður á reiðhjóli varð fyrir bifreið. Atvikið átti sér stað rétt fyrir klukkan átta. Lögreglan á Suðurnesjum var kvödd á slysstað, en tildrög slyssins voru þau að maðurinn var að hjóla fram hjá gatnamótum, þegar bifreiðinni var ekið inn á þau, með þeim afleiðingum að bíllinn og hjólið skullu saman. Meiðsl mannsins reyndust sem betur fer vera minni háttar.