11 Apríl 2008 12:00
Lögregluskóli ríkisins stóð fyrir hópslysaæfingu þriðjudaginn 8. apríl s.l. á Bláfjallavegi við Sandskeið þar sem umferðarslys var sett á svið. Hópferðabifreið átti að hafa lent utan vegar eftir að hafa lent í árekstri við fólksbifreið.
Tuttugu manns slösuðust í slysinu og þurftu nemendur grunnnámsdeildar, í hlutverki lögreglumanna, að kalla á þær bjargir sem nauðsynlegar voru, þar á meðal þyrlu Landhelgisgæslunnar, sjúkra- og slökkvilið og fulltrúa rannsóknarnefndar umferðarslysa.
Markmiðið með æfingunni var að þjálfa samvinnu nemendanna og viðbrögð þeirra þegar krafist er góðrar skipulagningar og faglegra vinnubragða. Þetta er í fyrsta skipti sem slík æfing er haldin á vegum Lögregluskóla ríkisins og er merki um hversu mikill metnaður er hjá skólanum að halda raunverulegar æfingar til að undirbúa verðandi lögreglumenn undir það sem koma skal í lögreglustarfinu.
Æfingin var samstarfsverkefni Lögregluskóla ríkisins, almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunnar, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra og rannsóknarnefndar umferðarslysa. Einnig tóku fjölmiðlar þátt í æfingunni og voru m.a. tekin viðtöl við stjórnendur á vettvangi en það er hluti af vettvangsstjórn lögreglunnar, þegar um slys sem þetta er að ræða, að gefa fjölmiðlum nauðsynlegar upplýsingar og veita þeim tiltekinn aðgang að slysstaðnum.
Öllum þeim sem komu að æfingunni, með einum eða öðrum hætti, eru hér með færðar sérstakar þakkir fyrir þeirra framlag. Náið og gott samstarf, eins og hér var um að ræða, er ómetanlegt fyrir Lögregluskóla ríkisins.
Það er samdóma álit þeirra sem tóku þátt í æfingunni að hún hafi tekist einstaklega vel í alla staði, verið skemmtileg, mjög krefjandi og afar gagnleg.
Hér til hliðar, í myndasafni Lögregluskóla ríkisins, má sjá ljósmyndir frá æfingunni.