7 September 2009 12:00

Lögreglan á Selfossi mældi ökuhraða bifhjóls sem ekið var um Suðurlandsveg í Flóa s.l. fimmtudag 192 km/klst en þar er leyfður ökuhraði 90 km/klst. Ökumaður hjólsins var færður á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum til bráðabirgða en málið heldur sinn veg í kerfinu og verður gefin út ákæra á hendur manninum fyrir brotið. Ökumaður hjólsins hefur ítrekað gerst sekur um umferðarlagabrot og hefur áður verið sviptur ökurétti á grundvelli punkta. Með broti þessu fyllir hann punktastöðu sína að nýju og má því búast við að við sviptingu vegna þessa brots bætist sviptingartími vegna uppsafnaðra punkta.

Á eftir bifhjóli mannsins var ekið öðru bifhjóli og vaknaði grunur um að því hefði einnig verið ekið of hratt enda þótt ekki hefði náðst mæling á hraða þess með ratsjá lögreglubifreiðarinnar. Í ljósi þess var farið í sérstakar mælingar á vettvangi á grundvelli upptöku úr eftirlitsmyndavél lögreglubifreiðarinnar og varð niðurstaða þeirra að síðara hjólinu hafi verið ekið með allt að 140 km/klst meðalhraða á 350 metra kafla þar sem mælingin fór fram. Ökumaður þess hjóls var því boðaður í skýrslutöku og gekkst hann við broti sínu.    Hann lýkur því með 90 þúsund króna sektargreiðslu og fær að auki 3 punkta í ökuferilsskrá.