1 Október 2006 12:00

Það sem af er degi, sunnudaginn 1. október, hafa óvenju margir ökumenn á til þess að gera stuttum tíma verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli.  Veður hefur verið gott á Suðurlandi í dag með sólskini og hlýindum sem ef til vill skýrir þetta að einhverju.  Frá kl.09:00 til 16:00 voru tólf ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Suðurlandsvegi og var sá sem hraðst ók mældur á 129 km hraða, annar á 128 km hraða og sá þriðji á 125 km hraða.  Einn af þessum tólf ökumönnum var mældur á 119 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km/klst og annar á 88 km hraða í gegnum þéttbýli við Hellu þar sem hámarkshraði er leyfður 50 km/klst..  Sem fyrr vekur athygli hver hlutfall erlendra ökumanna á bílaleigubifreiðum er hátt en af þessum tólf ökumönnum sem kærðir hafa verið í dag eru fimm erlendir ökumenn.  Þess má geta að alls hafa 33 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar í síðastliðinni viku og það sem af er sunnudeginum 1. október.  Flestir ökumenn ljúka málum sínum með greiðslu sektar strax á vettvangi.  Umferð hefur ekki verið mjög mikil í umdæminu í dag, sunnudag en þó hefur umferð verið heldur vaxandi nú síðdegis og án óhappa.  Áhyggjuefni er hve illa ökumenn virða reglur um leyfðan hámarkshraða sem gildir á vegum og í þéttbýli þrátt fyrir mikinn og sterkan áróður síðastliðnar vikur en hraðakstur er

ein helsta orsök alvarlegra slysa og meiðsla á fólki í umferðinni.