5 September 2006 12:00

 Vegna umfjöllunar um hraðakstur á þjóðvegum landsins hefur lögreglan í Vík tekið saman tölfræði úr málaskrá embættisins fyrir fyrstu 8 mánuði ársins og borið saman við sama tímabil frá árinu 2005.

Í ágústlok 2005 höfðu 460 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Á þessu ári hafa 779 ökumenn verið kærðir fyrir hraðakstur og nemur aukningin tæpum 70% milli ára.

Af þeim 779 ökumönnum sem kærðir hafa verið fyrir hraðakstur eru 325 erlendir ökumenn eða 42% allrar ökumanna sem lögreglan hefur kært vegna hraðaksturs á þessu ári. Afskipti lögreglu af erlendum ökumönnum vegna hraðaksturs hefur aukist gífurlega frá árinu áður eða um 137% . Á sama tíma er aukningin vegna fjölda íslenskra ökumanna sem kærðir hafa verið á árinu rúmlega 40% sem eru mikil vonbrigði, ekki síst vegna þess áróðurs sem rekin hefur verið gegn hraðakstri á þessu ári

Lögreglan í Vík hefur um árabil boðið erlendum ökumönnum að ljúka sínum málum á staðnum með greiðslu sekta. Það sem af er árinu hafa erlendir ökumenn greitt tæpar 5 milljónir króna í sektir vegna hraðaksturs í V-Skaftafellssýslu.

Fjöldi tilkynntra umferðaróhappa er svipaður fyrstu 8 mánuði ársins miðað við sama tímabili frá árinu áður. Athyglisvert er að erlendir ökumenn koma við sögu í um 35% tilfella allra umferðaróhappa þar sem eignartjón hefur orðið í V-Skaftafellssýslu það sem af er þessu ári.

Hert eftirlit lögreglunnar í Vík á vissulega stóran þátt í því að fjöldi kærðra ökumanna í umdæminu hefur aukist svo mikið. Engu að síður er það áhyggjuefni hversu mikil aukningin er og ekki síður hversu margir ökumenn aka langt yfir leyfilegum hámarkshraða.

Ekki verða neinar ályktanir dregnar af þessum tölum í þessari samantekt en það hlýtur að vera umhugsunarvert hversu hátt hlutfall erlendir ökumenn eru á meðal kærðra ökumanna og að ökuhraði þeirra virðist að jafnaði vera hærri en íslenskra ökumanna.