29 Ágúst 2008 12:00
Lögreglu hafa borist ábendingar um hraðakstur í námunda við nokkra grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu svo sem Langholtsskóla, Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla. Virðist sem sumir ökumenn virði að vettugi ítrekaðar ábendingar um sérstaka aðgát þar sem börn geta verið á ferð. Af þessu tilefni mun lögreglan herða eftirlit við grunnskóla og meðal annars nota til þess ómerkta lögreglubifreið sem búin er hraðamyndavél. Þeir sem aka yfir leyfilegum hámarkshraða mega búast við sektum.
Ökumenn eru að endingu hvattir til að sýna sérstaka árvekni og ábyrgð við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu enda fjöldi nemenda að hefja skólagöngu og færni þeirra til að meta hættur í umferðinni takmörkuð.