31 Maí 2010 12:00

Undanfarin þrjú ár í mars og/eða apríl hefur lögreglan verið við skipulagðar hraðamælingar í Garðabæ. Mælingarnar eru hluti af sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í og við íbúðargötur umdæminu en sami háttur hefur verið hafður á í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Fylgst er með umferð í völdum götum við svipaðar aðstæður á sama vikudegi og tíma dags á milli ára. Göturnar voru ýmist valdar eftir ábendingar frá sveitarfélögunum, íbúunum sjálfum eða lögreglumönnum sem þekkja vel til á hverjum stað. Við eftirlitið er notuð ómerkt lögreglubifreið sem er búin myndavélabúnaði. Reynslan hefur sýnt að notkun slíks búnaðar gefur gagnlegar upplýsingar um ástand umferðarmála og auðveldar leit að lausnum þar sem þeirra er þörf. Niðurstöðurnar hverju sinni eru sendar viðkomandi sveitarfélagi sem getur þá brugðist við ef tilefni er til, t.d. með hraðahindrandi aðgerðum eða hækkun hámarkshraða ef svo ber undir. Á neðstu skýringarmyndinni má sjá göturnar í Garðabæ sem komu við sögu í þessu eftirliti. Gullitaðar götur eru þær þar sem brotahlutfallið hefur verið yfir 30% í öll þrjú skiptin. Á hinum myndunum fjórum má sjá ýmsar samantektir þar sem gefur að líta samanburð allra hraðamælinganna á milli ára. Efst er brotahlutfallið, þá meðalhraði hinna brotlegu, því næst fjöldi brota og loks vöktuð ökutæki.