12 Október 2007 12:00

Hraðamyndavélar í Hvalfjarðarsveit:

Mynda rúmlega þúsund hraðabrot á mánuði

Stafrænu hraðamyndavélarnar tvær í Hvalfjarðarsveit hafa myndað 3.152 hraðabrot síðan þær voru settar upp í byrjun júlí, eða rúmlega 1000 hraðabrot á mánuði. Heildarsektir vegna þessara brota nema 55 milljónum króna. Gefinn er afsláttur ef sekt er greidd innan 30 daga, þannig að heildargreiðslur eru lægri sem nemur afslættinum.

Um þessar mundir er verið að vinna að uppsetningu sjö nýrra stafrænna hraðamyndavéla víða um land. Þeirri vinnu lýkur eftir fjórar til sex vikur. Sjö myndavélar til viðbótar verða settar upp á næsta ári.

Myndir úr hraðamyndavélunum eru dulkóðaðar og sendar  til lögreglustjórans á Snæfellsnesi, þar sem unnið er úr þeim. Málið er síðan sent til lögreglustjórans á Hvolsvelli, þar sem greiðsluseðlar vegna sektanna eru prentaðir út og sendir þeim sem brotið framdi. Þetta er liður í því að færa verkefni frá ríkislögreglustjóra til lögreglustjóra á landsbyggðinni.

Frá áramótum og út september hafa verið gefin út 15.389 sektarboð vegna hraðakstursbrota á landinu öllu þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Hlutfall brota vegna mynda stafrænu hraðamyndavélanna, í tæpa þrjá mánuði, er um 20,5%.

Vegagerðin sér um uppsetningu og viðhald stafrænu hraðamyndavélanna og fjármagnar kaup þeirra samkvæmt samningi milli ríkislögreglustjóra, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu, fyrir hönd samgönguráðuneytisins. Samkvæmt samningum var ákveðið að veita 218 milljónum króna til að herða til muna umferðareftirlit, bæði á þjóðvegum og í þéttbýli. Auk þess að fjármagna stafrænu hraðamyndavélarnar sextán hefur þessari upphæð meðal annars verið varið til kaupa á átta nýjum lögreglubifhjólum, 32 ratsjártækjum með myndavélum í lögreglubíla, 11 öndunarsýnismælum, auk þess að tryggja tvö stöðugildi hjá lögreglustjóranum á Snæfellsnesi við úrvinnslu á myndum stafrænu hraðamyndavélanna. Með samningum er bæði verið að bæta tækjakost lögreglunnar og gera henni kleift að fylgja hugsanlegum brotum eftir af fullum þunga.

Nánari upplýsingar veitir:

Páll Winkel aðstoðarríkislögreglustjóri.

Ítarefni