31 Október 2007 12:00

Hafnfirðingar eru í ágætum málum þegar kemur að löggæslu og ekki er annað að sjá út úr tölfræðinni en nær allir Gaflarar séu löghlýðnir borgarar. Þetta var meðal þess sem kom fram á fundi lögreglunnar og forystumanna bæjarins á fundi þeirra sem haldinn var í Hafnarfirði í dag. Sem kunnugt er sameinuðust lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu í eitt en hafnfirsku fundarmennirnir höfðu af því nokkrar áhyggjur að með því hefði staðarþekking lögreglumanna tapast. Eitthvað kann að vera til í því en þá er um tímabundið ástand að ræða. Eftir stendur samt að fjöldi útkallsbíla er sá sami og áður og Sævar Örn Guðmundsson, aðalvarðstjóri á svæðisstöðinni í Hafnarfirði, benti jafnframt á að með tilkomu hins nýja og öfluga lögregluliðs væri mun auðveldara en áður að kalla eftir aðstoð annarra lögreglumanna og að sú hjálp væri undantekningarlaust fljót að berast.

Aðalvarðstjórinn fór ítarlega yfir stöðu mála í Hafnarfirði og sagði ástandið á flestum sviðum vera gott. Í sama streng tók Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri en hann fór einnig yfir helstu markmið embættisins. Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn kynnti stefnu umferðardeildar og skýrði fundarmönnum frá ýmsum forvitnilegum niðurstöðum. Í gögnum hans kemur m.a. fram að slysum á fólki í umferðinni hefur fækkað mjög verulega í Hafnarfirði á undanförnum misserum. Kristján Ólafur tiltók sérstaklega hringtorg í þessu sambandi og sagði að með tilkomu þeirra hafi einmitt dregið mjög úr slysum á fólki þegar umferðin er annars vegar. Því megi óhikað segja að þau hafi sannað gildi sitt hvað þetta varðar. Margt fleira var rætt á fundinum en í lok hans var kynnt sú hugmynd að halda opinn fund um löggæslumál með íbúum bæjarins síðar í vetur. Hugmyndinni var mjög vel tekið og lýstu fundarmenn yfir ánægju með þetta framtak lögregluyfirvalda. Á myndinni hér að neðan eru nokkrir af fulltrúum lögreglunnar sem sátu fundinn en þeir eru, talið frá vinstri, Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri, Jóhannes Magnús Ármannsson rannsóknarlögreglumaður, Sævar Örn Guðmundsson aðalvarðstjóri og Helgi Gunnarsson rannsóknarlögreglumaður.