29 Júní 2007 12:00

Nú hefur Humarhátíðin á Höfn verið sett með hefðbundnum hætti.  Talsvert af gestum er komið í bæinn.  Mikill fjöldi var í skrúðsgöngu í kvöld og virðist fólk almennt skemmta sér vel, enda hátíðin vel skipulögð og mikið um að vera.

Humarhátíðin á Höfn er ein af þessum hefðbundnu bæjarhátíðum þar sem bæjarbúar, ungir sem aldnir, kappkosta við að sýna gestum sínum menningu og sögu bæjarins með ýmsum hætti.  Nafn hátíðarinnar er einmitt fengið af þeirri miklu hefð sem humarveiðar eru frá Höfn.  

lögreglan vill  brýna fyrir þeim ökumönnum sem eiga leið um A-Skaftafellssýslu að aka með varúð og sýna tillitsemi, en sauðfé getur leynst í vegköntum, og búast má við talsverðri umferð.  Sérstaklega er þeim, sem eru með hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagna eða önnur tengitæki í drætti, bent á að aka varlega og sýna tillitsemi. 

Lögreglan er með aukið umferðareftirlit og mun vera mjög áberandi á vegunum, vegfarendum til halds og trausts.