7 Apríl 2006 12:00

Um kl. 18:00 miðvikudaginn 5. apríl ákvað Veðurstofan að höfðu samráði við snjóathugunarmann og lögreglustjóra að hús í svonefndum rýmingarreitum A og E í Bolungarvík skyldu rýmd vegna snjósöfnunar ofan byggðar. Þau hús sem um ræðir eru við göturnar Dísarland og Traðarland en þær liggja næst fjallinu Traðarhyrnu, sem er ofan byggðarinnar. Fyrr um daginn hafði veginum um Óshlíð til Ísafjarðar sem er eina leið Bolvíkinga til og frá kaupstaðnum verið lokað vegna snjóflóðahættu en þar var einnig mikið snjókóf og því erfitt að komast um.

Talsvert hafði fennt í norðanátt sem ríkt hafði yfir daginn sem stundum sló út í norðvestan átt og veðurspá fyrir fyrri hluta næturinnar var óhagstæð með tilliti til snjókomu og vindáttar auk þess sem skari var víða í fjallinu og því talin hætta á að snjór sem félli myndi bindast illa þeim snjó sem var fyrir.

Almannavarnanefnd Bolungarvíkur fundaði skömmu fyrir kl. 19:00 og var íbúum á svæðinu í beinu framhaldi tilkynnt þessi ákvörðun.

Ekki er lengur búið í nema sex af þeim 11 húsum sem eru á svæðinu. Vel gekk að ná til íbúa allra húsanna, alls um 20 manns. Var þeim tilmælum beint til þeirra íbúa sem voru á svæðinu, en einhverjir voru fjarverandi, að yfirgefa húsin ekki síðar en kl. 21:00 um kvöldið. Tóku þeir allir þessu vel. Flestir fengu inni hjá vinum og vandamönnum en íbúar eins hússins fengu inni í íbúð sem bæjaryfirvöld útveguðu.

Strax morguninn eftir var hættustigi aflétt og fengu íbúar húsanna að snúa aftur heim en rétt þótti að hafa viðbúnaðarstig enn um sinn. Þá var umferð hleypt á veginn um Óshlíð á ný strax um morguninn en ekki höfðu fallið nein flóð á hann að þessu sinni. Viðbúnaðarstigi var síðan aflétt um kl. 16:00.