2 Maí 2011 12:00

Kl.09:01 í morgun barst lögreglunni á Vestfjörðum tilkynning um að hvítabjörn væri í fjörunni í Hælavík.  Tilkynnandi var skipstjóri á fiskibát sem var staðsettur fyrir utan víkina.  Björninn mun hafa hlaupið til fjalla þegar hann varð bátsins var. 

Í samræmi við viðbragðsáætlun vegna landgöngu hvítabjarna á Íslandi hafði lögreglan strax samband við Umhverfisstofnun, sem og Náttúrufræðistofnun.  Þá var þyrla LHG sett í viðbragðsstöðu með það í huga að ferja lögreglu og aðra tilheyrandi aðila á vettvang.

Veður mun vera gott á Hornströndum en þoka niður í miðjar hlíðar.  Vonir standa þó til að henni létti um eða upp úr hádegi í dag.

Lögreglan telur að engir séu á gangi á Hornströndum, enda ferðamannatími ekki hafinn þar.  Reglur um umgengni í friðlandinu kveða á um að allir þeir sem fara um svæðið geri Umhverfisstofnun viðvart.  Búi einhver yfir öðrum upplýsingum, þ.e.a.s. að einhverjir séu á svæðinu er óskað eftir að lögreglunni á Vestfjörðum verði gert viðvart í síma 450 3730.