23 Júní 2012 12:00

Erlendur karlmaður sem úrskurðaður hafði verið í farbann til 30. júni næstkomandi var í vikunni stöðvaður af flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar  þar sem hann gerði tilraun til að komast af landi brott með flugi. Sami maður, sem er á fimmtugsaldri, hafði verið handtekinn í aprílmánuði í flugstöðinni þar sem hann var á leið frá meginlandi Evrópu til New York með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Við hefðbundið vegabréfaeftirlit komu fram upplýsingar í Schengen-upplýsingakerfinu um að maðurinn væri eftirlýstur vegna gruns um brot í tilteknu Evrópuríki sem gerir kröfu um að hann verði framseldur. Maðurinn var í framhaldi úrskurðaður í farbann hér á landi. Hann beið þess því að verða framseldur þegar hann keypti sér flugmiða fyrr í vikunni og gerði tilraun til að fara úr landi. Hann var síðan stöðvaður við útgang í flugvélina á þriðjudagsmorgun og færður á lögreglustöð. Þar var honum gerð grein fyrir stöðu mála og ráðstöfunum sem gerðar yrðu til að tryggja veru hans hér þar til hann verður framseldur. Honum hefur nú meðal annars verið gert að tilkynna sig til lögreglu á tilteknum tímum tvisvar á sólarhring. Lögreglan veitir ekki frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.