1 Mars 2024 14:40

Íslenskur karlmaður á fertugsaldri er í gæsluvarðhaldi í Hollandi vegna smygls á peningum frá Íslandi til Hollands. Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá því í byrjun desember. Þá var íslenskri konu á þrítugsaldri sleppt úr haldi nýlega eftir að hafa verið í gæsluvarðhaldi hjá hollensku lögreglunni í rúman mánuð einnig vegna smygls á peningum.

Lögreglan vekur athygli á málunum tveimur til að upplýsa um alvarleika þess að smygla fjármunum úr landi fyrir skipulagða brotahópa. Brotahópar nota reglulega peningaburðardýr til þess að flytja peninga úr landi og líta burðardýr oftar en ekki svo á að það sé lítið mál.

Samkvæmt bráðabirgðatölum lögreglu hefur fjöldi skráðra peningaþvættismála aldrei verið meiri en árið 2023. Frá september 2022 til loka árs 2023 var m.a. haldlagt á Keflavíkurflugvelli, reiðufé, sem samkvæmt bráðabirgðatölum, nemur samtals að áætluðu verðmæti um 147 milljóna íslenskra króna.

Vakin er athygli á því að fólk þarf alltaf að geta gert grein fyrir fjármunum sem fluttir eru á milli landa. Brot gegn ákvæðum laga svo sem almennra hegningarlaga og laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka geta varðað fangelsisrefsingu.