13 Nóvember 2008 12:00

Öryggisvörður hjá Securitas hafði samband við lögregluna á Selfossi laust fyrir klukkan fimm í morgun og greindi frá því að hann hefði séð mann koma út um glugga fyrirtækis í Austurmörk í Hveragerði.  Skömmu síðar sá öryggisvörðurinn til ferða tólf tonna vörubíls á leið út úr bænum.  Honum tókst að ná niður skráningarnúmeri vörubifreiðarinnar.  Skömmu síðar sáu lögreglumenn á höfðuðborgarsvæðinu til ferða vörubifreiðarinnar á Suðurlandsvegi þar sem hann var að nálgast höfuðborgina.  Þeir stöðvuðu aksturinn og handtóku karl sem ók bifreiðinni og konu sem var með honum.  Karlinn og konan voru flutt í fangageymslu á Selfossi.  Auk þess var lagt hald á vörubifreiðina en í fiskikari sem var á palli hennar var þýfi úr fyrirtæki í Hveragerði.  Ökumaðurinn reynidist vera sviptur ökuréttindum auk þess sem hann var grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.  Karlmaðurinn, sem er tæplega þrítugur, hefur marg oft komið við sögu lögreglu.  Þau handteknu verða yfirheyrð í dag og að því loknu verður tekin ákvörðun um framhald málsins.