27 Mars 2012 12:00
Löggubandið hefur sent frá sér tvö ný lög sem bæði eru tileinkuð minningu Sveins Bjarka Sigurðssonar rannsóknarlögreglumanns en hann lést fyrir tveimur árum, langt um aldur fram. Lögin heita Í skugga lífsins og Enn nýr dagur en Björgvin Gíslason útsetti þau bæði. Það fyrra er eftir Ragnar Jónsson, sem einnig samdi textann, en lagið syngur Erla Dögg Guðmundsdóttir. Seinna lagið er eftir Rúnar Sigurðsson, bróðir Sveins heitins, en textann gerði Gísli Kr. Skúlason. Gísli, sem jafnframt syngur lagið, er trommuleikari Löggubandsins en aðrir meðlimir þess eru Ragnar Jónsson, hljómborð, Halldór Halldórsson, bassi, og Árni Þór Sigmundsson, gítar. Árni Þór var reyndar fjarri góðu gamni þegar lögin voru tekin upp en hann vann einnig að verkefninu. Það var hins vegar upptökustjórinn Björgvin Gíslason sem hljóp í skarðið og leikur hann á gítar í báðum lögunum en fiðluleikarinn Hjörleifur Valsson kemur jafnframt við sögu í öðru þeirra.
Fésbókarsíða (Löggubandið – Í minningu félaga) var stofnuð í tengslum við útgáfu laganna og þar er hægt að kaupa lögin í gegnum tónlist.is en allur ágóði af útgáfunni rennur alfarið til fjölskyldu Sveins en hann lét eftir sig eiginkonu og þrjú börn. Smellið hér til að skoða fésbókarsíðuna en lögin er einnig hægt að nálgast á tónlist.is Sveinn greindist með krabbamein árið 2009 og lést árið eftir. Hugmyndin að lögunum kviknaði á meðan hann barðist við sjúkdóminn en Sveinn sjálfur lagði til yrkisefnið, þ.e. bjartsýni og von en um það fjalla einmitt báðir textarnir. Þess má að endingu geta að Sveinn var hörkugóður söngvari og lét til sín taka með bæði með Löggubandinu og Lögreglukór Reykjavíkur.
Lögin voru færð fjölskyldu Sveins að gjöf við formlega athöfn í upplestrarsal lögreglustöðvarinnar sl. föstudag en myndin hér að neðan var tekin við það tækifæri. Á henni eru Ragna Eiríksdóttir, eiginkona Sveins heitins og börnin þeirra þrjú, Ásta Eir, Sólveig Embla og Alexander Freyr, ásamt meðlimum Löggubandsins, þeim Halldóri, Gísla og Ragnari, að ógleymdri söngkonunni Erlu Dögg.