2 Ágúst 2007 12:00

Versunarmannahelgin er ein af stærstu ferðahelgum ársins í umferðinni. Hún hefur þá sérstöðu umfram helgarnar á undan að víða eru útihátíðir og mikil umferð í kring um þær. Lögregluliðin á SV horninu vilja hvetja ökumenn til þess að gæta sérstaklega að akstri sínum um þessa helgi og virða hraðatakmörk sem í gildi eru en löngu er orðið ljóst að hraðakstur er ein hættulegasta iðja sem menn taka sér fyrir hendur í íslensku samfélagi. Rétt er að minna á að viðurlög við hraðakstri hafa verið hækkuð og þannig má ökumaður sem ekur með 111 – 120 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst reikna með að fá 50.000.00 króna sekt fyrir brotið. Sérstök ástæða er til þess að nota slíka fjármuni til þess að gera eitthvað skemmtilegt í stað þess að sitja uppi með að nota þá í sektir. Þá eru ökumenn hvattir til að fara ekki af stað eftir að hafa drukkið áfengi og gæta sérstaklega að því að af þeim sé runnin víman þegar farið er af stað að morgni eftir skemmtun næturinnar. Vegfarendur mega gera ráð fyrir að verða stöðvaðir af lögreglu á ferðum sínum þar sem kannað verður með ástand ökumanna með tilliti til ölvunar og eftir atvikum vímu af fíkniefnanotkun.

Gert er ráð fyrir vindasamri helgi og því er brýnt að fara gætilega með hjólhýsi eða á húsbílum og leita eftir upplýsingum um veðurfar á akstursleið áður en farið er af stað. Hægt er að sjá veðurhæð og vindhviður á vef vegagerðarinnar, www.vegagerdin.is

Lögreglan er með mikinn viðbúnað vegna umferðarinnar og mun sinna eftirlitinu á bílum, bifhjólum og með dyggri aðstoð Landhelgisgælsumanna úr lofti á þyrlum.

Þeim sem hyggja á ferðalög hefur oft gefist vel að biðja nágranna að líta til með íbúðarhúsum sínum en dæmi eru um að óprúttnir aðilar hafa notað sér ferðahelgar sem þessar til þess að fara inn á heimili og stela.

Landsmönnum óskum við góðar ferðar og ánægjulegrar heimkomu.

F.h. lögregluliðanna á S.V. horninu

Lögreglan á Selfossi