30 Nóvember 2016 11:29

Embætti ríkislögreglustjóra hefur birt niðurstöður könnunar um öryggi íbúa á vef lögreglunnar. Mikill meirihluti þátttakenda sagðist vera frekar eða mjög öruggur þegar þeir væru einir á ferli í sínu hverfi, eða 92%. Þá sagðist um helmingur (52%) þátttakenda aldrei hafa haft áhyggjur af því að verða fyrir afbroti á árinu 2015, sem er hærra hlutfall en síðustu ár þegar hlutfallið var 45% eða lægra. Þá voru 4% landsmanna sem höfðu frekar eða mjög oft áhyggjur af að verða fyrir afbroti árið 2015.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér. Er þetta þriðji hluti niðurstaðna, en áður hafa birst hlutar um „reynslu landsmanna af afbrotum“ og „viðhorf til lögreglu“ úr sömu könnun.

Um könnunina

Um er að ræða netkönnun sem lögð var fyrir 4.000 landsmenn 18 ára og eldri. Könnunin var framkvæmd af Gallup fyrir embætti ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Svarhlutfall var 64%. Gögnin voru vigtuð til þess að endurspegla þýði sem best með tilliti til búsetu, aldurs, menntunar og kyns.