15 September 2012 12:00

Kl. 06:30 í morgun var lögreglunni í Vestmannaeyjum tilkynnt að eldur væri laus í íbúð við Vestmannabraut 37. Mikill hiti og reykur var í íbúðinni þegar slökkvilið og lögregla komu á staðinn. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og reykræsa íbúðina. Enginn var í íbúðinni en húsráðandi var fjarverandi uppá landi. Miklar skemmdir eru á íbúðinni af völdum reyks og sóts.

Rannsóknarlögreglumaður frá Selfossi kom til Eyja ásamt tækideildarmönnum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar á málinu.

Ljóst er að um er að ræða íkveikju þar sem eldur kom upp á tveim stöðum í íbúðinni og af vegsummerkjum hefur verið brotist inní íbúðina. Þá var tekið 46 tommu sjónvarpstæki úr íbúðinni.

Lögreglan biður þá sem urðu varir við mannaferðir á þessum tíma eða hafa einhverjar upplýsingar um málið að hafa samband við lögregluna í Vestmannaeyjum í síma 481-1665 eða lögregluna á Selfossi í síma 480-1010.