6 Nóvember 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar eigendur og umráðamenn ökutækja við því að skilja verðmæti eftir í bílum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að slíkir hlutir séu ekki í augsýn. Þetta er ítrekað hér því talsvert hefur verið um innbrot í bíla á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu en m.a. hefur verið brotist inn í bíla í Hafnarfirði, Kópavogi og Breiðholti, svo nokkrir staðir séu nefndir. Sömuleiðis er rétt að benda á mikilvægi þess að skilja bíla frekar eftir á upplýstum bílastæðum, ef þess er nokkur kostur. Þjófum finnst nefnilega fátt betra en að athafna sig í myrkrinu þar sem ekki sést til þeirra.

Lögreglan hvetur líka fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir og munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan. Hér er m.a. átt við lýsingu á mönnum og bifreiðum en gott er að skrifa slíkt hjá sér ef fólk tekur eftir einhverju óvenjulegu í sínu nánasta umhverfi. Sama gildir um bílnúmer en slíkar upplýsingar geta komið lögreglu á sporið. Það sem fólki kann að finnast lítilfjörlegt getur einmitt orðið til þess að upplýsa mál.