12 September 2003 12:00

Kl.02:28 í nótt sem leið var tilkynnt til lögreglunnar á Ísafirði að verið væri að brjótast inn í húsnæði Heilbrigðis-stofnunarinnar í Ísafjarðarbæ, n.t.t. í sjúkrahúsið á Ísafirði.  Það voru vakthafandi starfsmenn sjúkrahússins á Ísafirði sem gerðu viðvart um innbrotið.  Lögreglan fór strax á vettvang og handtók karlmann á fertugsaldri inni í sjúkrahúsinu.  Maðurinn hafði brotið sér leið inn í húsnæðið í gegnum útihurð á neðstu hæð hússins.  Maðurinn sagði tilganginn með innbrotinu vera þann að leita að lyfjum til eigin neyslu.

Maðurinn hefur verið í haldi lögreglunnar frá því í nótt og var í dag úrskurðaður í svokallaða síbrotagæslu til 23. september nk. af Héraðsdómi Vestfjarða, að kröfu lögreglustjórans á Ísafirði.

Um er að ræða sama aðila sem braust inn í húsnæði Grunnskólans á Ísafirði í tvígang í liðinni viku og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.