28 Október 2002 12:00

Kl.10:28, sunnudaginn 27. október sl. fékk lögreglan á Ísafirði tilkynningu um að brotist hafi verið í skipið Mími ÍS-30, sem þá lá við bryggju á Ísafirði.  Brotist hafði verið inn í lyfjageymslur í skipinu og stolið nokkru magni af lyfjum ýmiskonar.  Rétt rúmri klukkustundu eftir að tilkynningin barst lögreglunni var rúmlega þrítugur karlmaður handtekinn á hafnarsvæðinu, grunaður um að hafa framið innbrotið.  Maðurinn var í haldi lögreglunnar þangað til í morgun er hann var látinn laus.  Maðurinn viðurkenndi að hafa framið verknaðinn og telst málið upplýst.  Ýmis sönnunargögn fundust á vettvangi er bentu til þess að umræddur maður hafi verið að verki.