26 Janúar 2011 12:00

Karl og kona voru handtekin á Selfossi í gær vegna gruns um gripdeild í verslun Krónunnar á Selfossi.  Lögreglumenn höfðu verið að svipast um eftir bíl, sem parið var á, eftir að hafa fengið ábendingu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna fyrri afskipta af fólkinu og að fólkið væri hugsanlega í innbrotum.  Við leit í bifreið parsins fundust munir sem tilheyrðu innbroti í sumarbústað í Vaðnesi sem tilkynnt var um í fyrradag.  Parið viðurkenndi að hafa brotist inn í sumarbústaðinn og annan til þar skammt frá.

Lögregluembættin á Selfossi og á höfuðborgarsvæðinu hafa unnið náið saman við eftirlit á sumarbústaðasvæðum og skipst á upplýsingum sem í þessu tilviki leiddi til þess að innbrot í sumarbústaðina í Vaðnesi upplýstust.  Auk innbrotsins og gripdeildarinnar í Krónunni var konan kærð fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.