28 Júlí 2006 12:00

Innbrot í sumarhús í Þernuvík, í Ísafjarðardjúpi.

Tilkynnt var til lögreglunnar á Ísafirði um að brotist hafi verið inn í nýlegt sumarhús sem staðsett er í Þernuvík í Ísafjarðardjúpi. Innbrotið er talið hafa átt sér stað einhvern tíma á tímabilinu frá sunnudagskveldi (23. júlí) og til fimmtudagsmorguns (27. júlí).

Þarna hafði verið brotin rúða í útihurð og hurðarlæsing opnuð. Innbrotsþjófur eða þjófar virðast hafa haft á brott með sér úr húsinu ýmsar persónulegar eigur, s.s. 15 DVD myndiska sem innihalda ýmsar kvikmyndir, Sony geislaspilara með útvarpi og philips rakvél.

Lögreglan á Ísafirði rannsakar þetta innbrot og óskar eftir öllum upplýsingum er varða hugsanlegar grunsamlegar mannaferðir við þennan bústað, sem stendur yst í Þernuvík. Sími lögreglunnar á Ísafirði er 450 3730.