30 Apríl 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum handtók snemma í gærmorgun tvo karlmenn á þrítugsaldri eftir að hópur manna hafði ruðst inn hjá karlmanni á fertugsaldri, með því að brjótast í gegnum framhurð húsnæðisins þar sem hann býr. Leikur grunur á að þeir sem brutust þar inn hafi misþyrmt húsráðandanum, meðal annars barið hann með spýtu sem fannst á vettvangi. Lögreglan var kvödd á staðinn rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Skömmu síðar  voru ofangreindir menn handteknir sem grunaðir forsprakkar í málinu,  annar á skemmtistað en hinn þar sem hann var á gangi í Reykjanesbæ. Þeir voru færðir á lögreglustöð og yfirheyrðir, en síðan látnir lausir í gærkvöld. Lögreglan rannsakar málið.

Þefjandi  af kannabis undir stýri

Lögreglan á Suðurnesjum hafði um helgina afskipti af ökumanni sem grunaður var um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þegar ökumaðurinn steig út úr bifreiðinni, að boði lögreglumanns, barst með honum megn kannabisþefur. Hann var beðinn um ökuskírteini, en gat ekki framvísað neinum skilríkjum. Lögregla bað hann þá að setjast aftur í lögreglubifreið til frekari viðræðna. Inni í lögreglubílnum magnaðist kannabislyktin af manninum enn upp og var hann handtekinn fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og færður á lögreglustöð. Hann viðurkenndi að hafa reykt kannabis skömmu áður en lögregla stöðvaði för hans.

Dýrar filmur í bílrúðum

Talsvert hefur verið um það að  undanförnu að lögreglan á Suðurnesjum hafi haft afskipti af ökumönnum sem eru með dökkar filmur í fremri hliðarrúðum bifreiða sinna. Slíkt er óheimilt samkvæmt umferðarlögum og nemur sekt við því fimm þúsund krónum. Að auki er viðkomandi bifreiðareiganda gert að færa bíl sinn til skoðunar til að hægt sé að ganga úr skugga um að lituðu filmurnar hafi verið fjarlægðar. Þessi óheimili aukabúnaður getur því kostað á annan tug þúsunda króna þegar allt er talið. Auk þessa hefur lögregla fjarlægt  númerin af allmörgum bifreiðum í umdæminu sem annað hvort hafa ekki verið færðar til skoðunar á tilsettum tíma eða eru ótryggðar. Lögregla beinir þeim tilmælum til bifreiðaeigenda að hafa ofangreind atriði í lagi.

Ölvaður ók á bifreið

Lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina  karlmann eftir að hann hafði ekið utan í bifreið og fellihýsi sem lagt var í stæði í Reykjanesbæ. Skemmdir urðu bæði á bíl og fellihýsinu. Maðurinn reyndist vera ölvaður þegar lögreglumenn komu á staðinn og var hann því færður á lögreglustöð. Hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku.  Þá var lögreglu tilkynnt um ákeyrslu og afstungu. Ekið hafði verið á grindverk í Reykjanesbæ og það skemmt. Ökuþórinn lét sig hins vegar hverfa af vettvangi og er málið til rannsóknar hjá lögreglu.