11 September 2008 12:00

Síðastliðna nótt var brotist inn í bifreiðar og farið inn í hús á nokkrum stöðum í Bolungarvík. Átta tilkynningar hafa borist lögreglu vegna þessa í dag, en vitað er að farið var inn í sex bifreiðar og ýmsum munum stolið úr þeim. Má nefna hjómtæki, I-pod spilara og GPS tæki. Þá voru unnar talsverðar skemmdir á einni bifreiðinni sem stóð á hafnarsvæðinu í Bolungarvík en allar rúður í bifreiðinni voru brotnar, ásamt ljósum og speglum, og hjómtækjum síðan stolið. Þessu til viðbótar er vitað að menn fóru inn í tvö íbúðarhús í nótt en hlupu á brott er húsráðendur vöknuðu og urðu varir við umgang. Líklegt er að menn þessir hafi verið á ferð um bæinn á tímabilinu 03:00 til 05:00 í nótt sem leið. Lögreglan vinnur að rannsókn þessara mála en biður þá sem urðu varir við grunsamlegar mannaferðir í Bolungarvík í nótt að hafa samband í síma 450-3730.