7 Október 2004 12:00

Eitt af höfuðmarkmiðum Lögreglunnar í Reykjavík fyrir árið 2004 er að fækka innbrotum í umdæminu um 20%.

Fyrstu níu mánuði ársins 2004 var tilkynnt um 1299 innbrot til Lögreglunnar í Reykjavík, en á sama tíma í fyrra var tilkynnt um 1483 innbrot, sem þýðir rúmlega 12% fækkun á milli ára. Verulegur árangur náðist á liðnu sumri þegar tilkynnt innbrot voru 33% færri í ár en á sama tíma í fyrra (miðað við mánuðina júní, júlí og ágúst).

Línuritið sýnir fjölda innbrota árið 2003 og fyrstu níu mánuði ársins 2004, tölur úr dagbók lögreglunnar.

Í baráttunni fyrir fækkun innbrota hefur lögreglan lagt áherslu á að stöðva þá brotamenn sem virkastir eru hverju sinni. Áhersla hefur verið lögð á að bæta samvinnu milli deilda innan lögreglunnar og tryggja betra upplýsingaflæði en áður. Einnig hefur úrvinnsla á upplýsingum úr gagnagrunnum lögreglu verið aukin í þeim tilgangi að greina hvaða brotamenn eru virkastir, hvar innbrot eru helst framin o.s.frv. Í ár hefur ein staða rannsóknarlögreglumanns, sem heyrir undir almenna deild, verið sérstaklega helguð þessu verkefni.

Í septembermánuði voru skráð innbrot með mesta móti, eða165 talsins. Mjög áberandi er hversu mörg skráð innbrot voru í bifreiðar, en þau voru 90 talsins. Á sama tíma var einnig tilkynnt um mörg innbrot í heimahús, fjöldi þeirra var 38.

Lögreglan leitar eftir samstarfi við almenning um að sporna gegn þeim vágesti sem innbrot eru. Fólk er beðið um að ganga tryggilega frá eigum sínum og bjóða ekki hættunni heim, t.d. með því að skilja eftir verðmæti í bifreiðum. Á undanförnum vikum hafa komið fram mörg dæmi þess að fartölvum er stolið úr bifreiðum þar sem eigendur þeirra hafa skilið þær eftir.

Lögreglan hvetur alla til þess að vera á verði og hika ekki við að tilkynna um grunsamlegar mannaferðir til lögreglu. Lögregla minnir á neyðarsímanúmerið 112 og upplýsingasíma Lögreglunnar í Reykjavík 444 1100. Upplýsingum má einnig koma á framfæri með tölvupósti á