27 Nóvember 2009 12:00

Í nótt stóð lögreglan á Suðurnesjum þrjá unga menn að innbroti í Grindavík. Tveir mannanna höfðu brotið rúðu tískuvöruverslunar í verslunarmiðstöð og farið þar inn en sá þriðji beið í bifreið fyrir utan. Þeir tveir sem fóru inn í verslunina náðu að brjóta glerskáp og voru búnir að setja eitthvað af skartgripum í poka þegar lögreglan kom á staðinn. Mennirnir voru handteknir og gista nú fangageymslur. Þeir verða yfirheyrðir í dag. Þeir eru á aldrinum 17, 20 og 23 ára.