16 Nóvember 2018 10:29

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir októbermánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Í októbermánuði bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 799 tilkynningar um hegningarlagabrot. Tilkynningunum fjölgaði á milli mánaða. Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði nokkuð í október miðað við fjölda síðustu sex mánuði á undan. Alls barst 21 tilkynning um kynferðisbrot sem áttu sér stað í október og sex tilkynningar um brot sem áttu sér stað fyrir þann mánuð. Í október fjölgaði einnig tilkynningum um innbrot, sérstaklega um innbrot í ökutæki. Frá 1. október til 15. nóvember bárust tilkynningar um innbrot í 100 ökutæki. Flest þessara innbrota áttu sér stað í miðborg Reykjavíkur. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill því brýna fyrir eigendum og umráðamönnum að ganga tryggilega frá ökutækjum sínum og geyma engin verðmæti í þeim. Einnig er gott að huga að því að leggja bifreiðum í stæði þar sem góð lýsing er til staðar.