11 Ágúst 2003 12:00

125 umsækjendur eru skráðir í inntökupróf í Lögregluskóla ríkisins fyrir skólaárið 2004. Að auki hafa sex umsækjendur gilt inntökupróf frá fyrra ári þannig að samtals er 131 umsækjandi sem keppir um skólavist í Lögregluskólanum á næsta ári.

Inntökuprófin fara fram dagana 22. – 29. ágúst nk. og hafa allir sem uppfylla inntökuskilyrði verið boðaðir til prófanna. Eftir að prófum er lokið fá umsækjendur sent bréf sem greinir frá því hvort þeir hafi staðist inntökuprófin og þá einnig hvenær þeir eigi að mæta fyrir valnefnd.

Mæting í inntökuprófin er í Lögregluskóla ríkisins að Krókhálsi 5b í Reykjavík og hefjast prófin stundvíslega klukkan 9:00 að lokinni upphitun. Skólahúsnæðið verður opnað klukkan 08:20.

Umsækjendur þurfa að hafa með sér föt og skó til inniæfinga (skó sem ekki skilja eftir sig svartar rendur); útigalla, góða hlaupaskó og sundfatnað.

Valnefndarviðtölin fara fram dagana 15. – 22. september nk. Í viðtölunum þurfa umsækjendur m.a. að gera grein fyrir því hverjir þeir séu, hvaða menntun þeir hafi, starfsreynslu og öðru því er þeir telja sér til tekna. Þá þurfa þeir að svara almennum spurningum valnefndarmanna. Gera má ráð fyrir að hvert viðtal taki um 20 mínútur. Umsækjendur eru hvattir til að mæta snyrtilega klæddir í viðtölin.