14 September 2004 12:00
Nú er lokið inntökuprófum fyrir námsárið 2005 í Lögregluskóla ríkisins en 124 umsækjendur voru boðaðir í inntökuprófin.
Af þeim sem voru boðaðir til prófa mættu 26 þeirra ekki í prófin og þrátt fyrir að flestir þeirra hafi látið vita af fjarveru sinni er það umhugsunarefni að rúmlega fimmtungur umsækjenda sæki um skólavist án þess að fylgja því eftir með því að þreyta inntökupróf.
Það voru því 98 umsækjendur sem þreyttu inntökupróf í Lögregluskóla ríkisins fyrir skólaárið 2005 og féllu 35 (35,7%) þeirra á prófunum, 32 þeirra náðu ekki þrekprófum og 3 að auki náðu ekki íslenskuprófi.
Skýringanna á því að þriðjungur umsækjenda skuli falla á þrekprófum er, að mati skólans, frekar að leita í lélegu líkamsástandi umsækjenda en því að prófin séu erfið. Til samanburðar má geta þess að fallprósenta á síðasta ári var 26.7% og þá var um nákvæmlega sömu kröfur að ræða. Sú staðreynd blasir einnig við að margir virtust ekki hafa kynnt sér fyrirfram í hverju prófin væru fólgin, þrátt fyrir að nákvæmar upplýsingar um þau séu aðgengileg, m.a. hér á heimasíðunni.
Samkvæmt þessu voru 63 umsækjendur sem stóðust öll inntökupróf og verða þeir boðaðir fyrir valnefnd Lögregluskólans. Valnefndarviðtölin fara fram dagana 20. 23. september n.k. og hefur öllum umsækjendum verið sent bréf þar að lútandi.
Úr þessum hópi verða valdir 20 hæfustu umsækjendurnir og munu þeir hefja skólavist í Lögregluskóla ríkisins í janúarbyrjun 2005.