5 Júlí 2015 23:23

Þann 30. júní s.l. lauk inntökuprófum vegna inntöku nýnema í grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins. Alls bárust 160 umsóknir, tveir umsækjendur uppfylltu ekki almenn inntökuskilyrði og því voru 158 umsækjendur boðaðir í inntökupróf, 97 karlar (61,4%) og 61 kona (38,6%).

Níu umsækjendur drógu umsókn sína til baka, tveir boðuðu forföll vegna veikinda og fjórir mættu ekki í inntökupróf. Það voru því 143 umsækjendur sem mættu í inntökupróf í þreki, íslensku, almennri þekkingu og ensku. Auk þess gengust umsækjendurnir undir sálfræðimat þar sem lagt er mat á persónuleika þeirra og álagsþol.

68 umsækjendur náðu ekki fullnægjandi árangri á inntökuprófum, 33 í þrekprófi og 35 í íslenskuprófi. Niðurstaðan er því sú að 75 umsækjendur uppfylltu almenn inntökuskilyrði og stóðust inntökupróf. Af þeim er 51 karl (68%) og 24 konur (32%).

Valnefnd Lögregluskóla ríkisins hefur það hlutverk að velja þá 16 hæfustu úr þessum hópi umsækjenda til að hefja nám við grunnnámsdeild skólans þann 1. september n.k. Það gerir nefndin m.a. með því að taka tillit til ákveðinna þátta svo sem

  1. árangurs umsækjenda og framkomu á inntökuprófum,
  2. menntunar umfram þá lágmarksmenntun sem er áskilin,
  3. kynferðis með hliðsjón af því að auka þátttöku kvenna í lögreglustörfum,
  4. upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu,
  5. hvort viðkomandi hafi reynslu af afleysingastörfum í lögreglu eða skyldum störfum og
  6. almennrar reynslu umsækjanda úr atvinnulífinu.

Auk þessa lítur valnefndin til persónulegra eiginleika sem nauðsynlegir eru í fari lögreglumanns, einkum framkomu, svo sem kurteisi og lipurðar í samskiptum og hvernig þokka umsækjandinn býður af sér á allan hátt.

Valnefndin ákveður hvaða umsækjendur verða boðaðir í viðtal hjá nefndinni og öllum 109 umsækjendum, sem uppfylltu almenn inntökuskilyrði og stóðust inntökupróf, verður á allra næstu dögum tilkynnt hvort og þá hvenær þeir eru boðaðir í viðtalið.

Innilega er beðist velvirðingar á því að fyrri frétt um lok inntökuprófa var röng, þar láðist að geta þeirra sem féllu á inntökuprófi í íslensku.