Ísbjörn felldur í Skagafirði

5 Júní 2008 12:00
Síðast uppfært: 22 Desember 2014 klukkan 11:19

Í kjölfar þess að ísbjörn var felldur á Laxárdalsheiði í Skagafirði þriðjudaginn 3. júní síðastliðinn, vill lögreglan á Sauðárkróki koma því á framfæri að ástæða þótti til að ganga úr skugga um að fleiri bjarndýr gengju ekki laus á svæðinu.  Var því óskað liðsinnis Landhelgisgæslu Íslands sem sendi þyrlu til þess að leita svæðið úr lofti.  Með í för voru tveir starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Norðurlands vestra.  Niðurstaða þeirrar leitar var sú að líklega hefur umrætt bjarndýr verið eitt á ferð. 

Lögreglan vill jafnframt árétta að gefnu tilefni, þar sem fjölmiðlum var tilkynnt um bjarndýrið áður en lögreglu barst tilkynningin, að öllum slíkum tilkynningum ber að beina strax í neyðarnúmer lögreglu, sem er 112.