18 Október 2013 12:00

Í gær féll dómur í Hæstarétti Íslands þar sem íslenska ríkið er sýknað af kröfu norsks Vítisengils um miskabætur vegna frávísunar frá Íslandi.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að hættumat ríkislögreglustjóra, sem stjórnvöld höfðu stuðst við þegar ákvörðun var tekin um að vísa viðkomandi frá landinu, hefði ekki verið haldið annmörkum og að málið hefði jafnframt verið nægilega upplýst áður en ákvörðun var tekin um frávísun.

Niðurstaða Hæstaréttar er sú að ákvörðunin hefði átt sér næga lagastoð og að fullnægt hefði verið þeim skilyrðum sem íslensk lög og reglugerðir, virt í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga Íslands, settu fyrir lögmæti slíkrar ákvörðunar. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu mannsins.

Stefna íslenskra lögregluyfirvalda gagnvart skipulögðum glæpasamtökum í rúman áratug hefur verið skýr og aðgerðir lögreglunnar gegn samtökum á borð við Vítisengla skilað miklum árangri. Dómur Hæstaréttar er staðfesting á lögmæti ákvarðana og vinnubragða íslenskra yfirvalda.

Lesa má dóminn hér