25 Ágúst 2009 12:00

Dagana 18. og 19. ágúst s.l. fór fram norðurlandamót lögreglumanna í golfi í Dannmörku, nánar tiltekið á Rold Skov golfvellinum nálægt Hobro á Jótlandi.

Þar kepptu fyrir hönd Íþróttasambands Lögreglumanna, ÍSL, þeir Friðrik K. Jónsson og Óskar Halldórsson, lögreglunni á Suðurnesjum, Hörður Sigurðsson og Sigurður Pétursson lögreglunni á höfuðborgar-svæðinu, Birgir Már Vigfússon frá embætti ríkislögreglustjóra og Sigurbjörn Þorgeirsson lögreglunni á Eyjafjarðarsvæðinu.

Skemmst er frá því að segja að Sigurbjörn Þorgerisson sigraði á mótinu á 150 höggum, eða 6 yfir pari, annar varð Sigurður Pétursson á 158 höggum og í þriðja sæt, ásamt svía, varð Birgir Már Vigfússon á 159 höggum. Hörður Sigurðsson varð í 7 sæti ásamt tveimur öðrum á 175 höggum. Þessir aðilar mynduðu síðan sveit Íslands sem sigraði í sveitakeppninni með nokkrum yfirburðum á 642 höggum næstir komu svíar á 672 höggum. Yfirburðir okkar manna voru miklir en svíar hafa hingað til verið mun betri en þeir voru að þessu sinni. Veður var frekar óhagstætt fyrri daginn, talsvert rok.

Frábær árangur hjá Sigurbirni sem á sinn heimavöll á Ólafsfirði en hann stundar íþrótt sína af mikilli elju og uppsker samkvæmt því.