29 Október 2008 12:00

Afbrotum í Breiðholti fækkaði verulega árið 2007 í samanburði við árið á undan en þessi ánægjulega niðurstaða var kynnt á fundi í þjónustumiðstöðinni í Mjódd á mánudag. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóð fyrir fundinum og boðaði til sín lykilfólk í hverfinu en fundur sem þessi er haldinn árlega. Þegar rýnt er í tölfræðina má t.d. sjá að auðgunarbrotum fækkaði mikið á milli ára. Þau voru 352 árið 2007 en 515 árið 2006. Til auðgunarbrota teljast m.a. innbrot en þeim fækkaði úr 246 í 182 á umræddu tímabili. Sömuleiðis dró mjög úr nytjastuldi í Breiðholti og einnig fækkaði umtalsvert tilkynningum um eignaspjöll. Þetta er hluti af góðu fréttunum en slæmu fréttirnar voru þær að ofbeldisbrotum fjölgaði úr 68 í 89 á milli ára.

Tuttugu og fimm manns sátu fundinn en á honum var einnig kynnt niðurstaða um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. 91% Breiðhyltinga eru almennt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila ágætu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í hverfinu. Það verður að teljast mjög góð útkoma en hinu má heldur ekki gleyma 38% Breiðholtsbúa sögðu jafnframt að lögreglan væri ekki nógu aðgengileg þegar þeir þyrftu að fá upplýsingar, aðstoð eða fræðslu og því ætlar lögreglan að breyta. Í sömu könnun kom einnig fram að Breiðhyltingar telja sig yfirleitt mjög eða frekar örugga þegar þeir eru á ferð í sínu hverfi eftir að myrkur er skollið á en tæplega 80% töldu svo vera.

Sigrún Einarsdóttir, Björn Bjartmarz og Þorkell Ragnarsson.

Þorsteinn G. Hjartarson, Sigþór Magnússon og Þóra Kemp.