7 Nóvember 2012 12:00

Verulegur árangur hefur náðst í því að fækka innbrotum á höfuðborgarsvæðinu, en það var meðal þess sem fram kom á árlegum fundi lögreglunnar með Kópavogsbúum í gær. Fundurinn var haldinn í Kópavogsskóla en á honum voru birtar tölur um fjölda brota og þróun þeirra í Kópavogi. Einna mesta athygli vakti jákvæð þróun þegar innbrot eru annars vegar, en frá árinu 2007 hefur þeim fækkað um helming í þessu næst fjölmennasta sveitarfélagi landsins. Fundargestir voru að sjálfsögðu ánægðir með þessi tíðindi en þótti jafnframt forvitnilegt að heyra hverju þakka mætti árangurinn.

Við þeirri spurningu er kannski ekki bara eitt svar heldur samspil nokkurra þátta sem ræður úrslitum. Nefna má þá áherslu lögreglunnar að taka úr umferð virka brotamenn og koma þeim í síbrotagæslu. Annað, og ekki síður mikilvægt atriði, er samstarf lögreglunnar við borgarana. Hér er átt við upplýsingar um grunsamlegar mannaferðir sem berast lögreglu en þær hafa ósjaldan hjálpað til við að leysa mál. Nágrannavörslu verður líka að nefna til sögunnar en allir þessir þættir stuðla að betri árangri þegar kemur að því að fækka innbrotum. Um ofangreint var nokkuð rætt á fundinum en einnig um málefni barna og unglinga, sem virðast í ágætu lagi. Umferðarmálum voru líka gerð skil en lögreglan fylgjast grannt með umferðarhraða í Kópavogi, líkt og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Tölfræðina frá fundinum í gær má nálgast með því að smella hér.

Frá Kópavogi.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is