22 Nóvember 2010 12:00

Íbúar í Mosfellsbæ virðast almennt vera ánægðir með þróun mála þegar brot í sveitarfélaginu eru annars vegar. Enda mega þeir alveg vera það því tölfræðin sýnir ánægjulega þróun í þessum efnum. Innbrotum í bænum hefur fækkað frá því í fyrra og á það jafnt við um innbrot í fyrirtæki, bíla eða á heimili. Samanburðurinn nær yfir tímabilið frá ársbyrjun til októberloka áranna 2009 og 2010 en frekari tölfræði má nálgast hér. Áðurnefndar niðurstöður voru kynntar á árlegum fundi lögreglunnar og fulltrúa sveitarfélagsins sem haldinn var í stjórnsýsluhúsinu í Mosfellsbæ sl. fimmtudag. Samhliða var greint frá könnun um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í henni kemur fram að íbúar á svæði lögreglustöðvar 4 (Mosfellsbær, Grafarvogur, Grafarholt, Árbær, Norðlingaholt, Kjalarnes og Kjósarhreppur) telja að lögreglan sinni góðu starfi á umræddu svæði en rúmlega 90% töldu svo vera.

Sem fyrr segir voru fundarmenn ánægðir með þessa jákvæðu þróun og lítið var um gagnrýnisraddir á fundinum. Þó var ekki laust að við einhverjir söknuðu þess að lögreglustöð er ekki lengur í bænum. Hinir sömu munu því væntanlega gleðjast yfir þeim fréttum að í undirbúningi er að opna nýja lögreglustöð í Mosfellsbæ sem verður staðsett við Skarhólabraut. Gert er ráð fyrir að hún verði tekin í notkun sumarið 2012 ef öll áform ganga eftir. Á fundinum var einnig rætt sérstaklega um málefni barna og unglinga og samstarf félagsþjónustunnar og barnaverndaryfirvalda við lögreglu. Allir voru sammála um að það væri gott og að þessi fyrrnefndur aldurshópur væri sömuleiðis í góðum málum og almennt til fyrirmyndar. Ekkert væri þó sjálfgefið í þeim efnum og því þyrftu allir að halda vöku sinni.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is