20 Nóvember 2007 12:00

Allmargir jarðskjálftar hafa fundist á og við Selfoss nú á síðasta klukkutímanum.   Hrina smáskjálfta hófst í morgun og voru skjálftarnir framan af degi flestir, skv. óyfirförnum mælingum á vef Veðurstofu Íslands, af stærðargráðunni 1 til 1,5 á Richter og fundust ekki.   Í kvöld hafa nokkrir skjáfltar verið á bilinu 2 til 3,5 á Richter og finnast slíkir skjálftar yfirleitt vel nærri upptakastöðum þeirra.    Vitað er um dæmi þess að myndarammar hafi fallið í hillum og ljósakúplar losnað en aðrar skemmdir hafa ekki orðið svo vitað sé.   

Jarðskjálftafræðingar veðurstofu fara nú yfir nýjustu mælingar en almennt er ekki talin ástæða til að ætla að þessi hrina sé fyrirboði um stærri skjálfta.  Það er hinsvegar alltaf gott fyrir menn að kynna sér leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við jarðskjálftum en þær er að finna á bls. 17. í símaskránni.