Lögreglan á Norðurlandi eystra, Vegagerðin og sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands hafa vaktað Jökulsá á Fjöllum undanfarið vegna krapastíflu og flóðahættu á svæðinu.
8 Febrúar 2021 14:08

Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra:

Vatnshæð í Jökulsá á Fjöllum hefur lækkað og því hefur verið tekin ákvörðun í samráði við Vegagerðina að hleypa ótakmarkaðri umferð yfir brúna við Grímsstaði.

Ákvörðunin er byggð á hagstæðri veðurspá, jöfnu hitastigi og lítilli úrkomuspá.  Ákvörðunin er jafnframt byggð á niðurstöðum sem vísindamenn hjá Veðurstofu Íslands hafa tekið saman og sýna ákveðna þróun á hegðun árinnar, íssins og fleira.  Ákveðið jafnvægi virðist hafa náðst og þess vegna ákvörðun tekin um að opna þjóðveg 1 um Mývatns- og Möðrudalsöræfi án hafta.

Vísindamenn verða eftir sem áður með stöðugt eftirlit með mælitækjum og brugðist verður ef eitthvað óeðlilegt gerist. Verði svo getur komið til fyrirvaralausrar lokunar á veginum ef menn telja þörf á.

Lögreglan á Norðurlandi eystra, Vegagerðin og sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands hafa vaktað Jökulsá á Fjöllum undanfarið vegna krapastíflu og flóðahættu á svæðinu.