17 Ágúst 2012 12:00

Kannabis og loftskammbyssur

Kannabisefni og tvær loftskammbyssur fundust í íbúðarhúsnæði  í Reykjanesbæ í fyrradag. Lögreglan á Suðurnesjum fór í húsleit á staðinn, að fengnum dómsúrskurði, og fann þá lítilræði af kannabis, auk byssanna. Fíkniefnaleitarhundur var með í för og vísaði hann á staðina þar sem efnin voru falin.

Með tæpt kíló af amfetamíni

Karlmaður á þrítugsaldri hefur að undanförnu setið í gæsluvarðhaldi eftir að hann var stöðvaður við komuna til landsins með mikið magn af amfetamíni. Maðurinn, sem er pólskur og hefur verið búsettur hér, var að koma frá Varsjá þegar tollgæslan stöðvaði hann við hefðbundið eftirlit í Leifsstöð. Hann reyndist vera með tæpt kíló af amfetamíni, sem hann hafði að hluta til innvortis og að hluta í tveimur sjampóbrúsum. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið og er rannsókn vel á veg komin.

Með hass innan klæða

Kona á þrítugsaldri var í vikunni stöðvuð við komuna til landsins, við hefðbundið eftirlit tollgæslunnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þar sem grunur lék á að hún hefði fíkniefni í fórum sínum. Hún framvísaði neysluskammti af hassi við leit tollvarða. Hún var með hassið í plastpoka, sem hún hafði falið innan klæða í nærbuxum sínum. Konan var að koma með flugi frá Kaupmannahöfn, þegar hún var handtekin.