14 Desember 2012 12:00

Í húsleit sem lögreglan á Suðurnesjum gerði í húsnæði í Reykjanesbæ í vikunni, að fenginni leitarheimild, var lagt hald á tugi kannabisplantna og búnað. Mikla kannabislykt lagði út úr húsinu, þegar lögreglumenn fóru þar inn. Kannabisplönturnar voru ræktaðar í tveimur herbergjum húsnæðisins. Tveir einstaklingar, karlmenn á þrítugs- og fimmtugsaldri voru handteknir vegna málsins og þeir færðir á lögreglustöð. Þeim var sleppt að loknum skýrslutökum. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

Tveir piltar í bílainnbrotum

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í fyrradag tvo unga pilta, sem staðnir höfðu verið að því að brjótast inn í bíla og stela úr þeim. Piltarnir, sem eru þrettán og fjórtán ára, höfðu í þetta skiptið komið að ólæstri bifreið og voru að fjarlægja muni úr henni þegar lögreglan kom á vettvang. Við yfirheyrslur játuðu þeir að hafa brotist inn í bíla og selt þýfi það sem þeir höfðu haft upp úr krafsinu. Barnaverndarnefnd var tilkynnt um málið.

Fíkniefna- og hraðakstur

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í vikunni ökumann á fertugsaldri sem reyndist hafa neytt fjögurra tegunda af fíkniefnum. Sýnatökur staðfestu neyslu á amfetamíni, metamfetamíni, kókaíni og kannabis. Hann hafði áðurr verið sviptur ökuréttindum.

Þá stöðvaði lögreglan för tvítugs ökumanns sem var réttindalaus. Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur og númer klippt af tveimur bifreiðum þar sem þær voru ótryggðar.