6 Júní 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesnjum stöðvaði kannabisræktun í íbúð í Grindavík í vikunni. Að fengnum dómsúrskurði til húsleitar var farið með fíkniefnahundinn Ellu á staðinn. Við leit í íbúðinni fannst riffill ásamt riffilskotum í fataskáp. Í þvottaherbergi fundust leifar af kannabis í pokum, tóbaksblandað kannabis og tól til neyslu. Í kjallara undir bílskúr fannst síðan ræktunin, nokkrir tugir plantna í blóma, ásamt tækjum og tólum til athæfisins. Lögregla minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í  hann má hringja gjaldfrjálst og undir nafnleynd og koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál.

Tveir með kannabis

Tveir tæplega tvítugir menn játuðu vörslur á kannabisefnum í tveimur aðskildum málum þegar lögreglan á Suðurnesjum var við hefðbundið eftirlit í vikunni. Annar mannanna heimilaði leit á sér og reyndist hann vera með tóbaksblandað kannabis í buxnavasanum.  Að fenginni heimild til leitar  í hinu málinu fann lögreglan kannabisefni í plastumbúðum í bifreið. Átján ára piltur játaði vörslur á efninu. Mennirnir voru báðir handteknir og færðir á lögreglustöð þar sem tekin var af þeim skýrsla.