26 Júní 2015 13:28

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði nýverið kannabisræktun þar sem var að finna vel á annað hundrað plöntur. Það var lögreglumaður á frívakt sem varð var við mikla kannabislykt frá íbúðarhúsnæði í umdæminu. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var einn einstaklingur fyrir í umræddri íbúð, sem lyktin barst frá. Hann framvísaði tóbaksblönduðu kannabis, svokallaðri jónu. Grunur lék á að eitthvað fleira leyndist í pokahorninu. Það reyndist rétt vera því  lögreglumennirnir komu í þeim svifum auga á poka fullan af kannabisefni og mikinn ljósbjarma sem barst frá tveimur herbergjum í íbúðinni. Í herbergjunum fundust svo kannabisplönturnar.  Málið er í rannsókn.