21 Febrúar 2007 12:00
Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn verður yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Karl Steinar, sem hóf störf í lögreglunni í Reykjavík 1985, útskrifaðist frá Lögregluskóla ríkisins 1989. Hann var skipaður aðstoðaryfirlögregluþjónn 1997 og stýrði þá forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík. Karl Steinar hefur verið aðstoðaryfirlögregluþjónn í almennu deild lögreglunnar frá 2002. Hann hefur farið með málefni almennu löggæslunnar og sólarhringsvaktanna frá þeim tíma, fyrst hjá lögreglunni í Reykjavík en frá áramótum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Karl Steinar lauk námi í afbrotafræði frá California State University í Bandaríkjunum 1994. Hann útskrifaðist frá Lögregluskóla bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) 1999 og lauk námi fyrir stjórnendur í lögreglu frá sama skóla 2002. Karl Steinar lauk MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík 2006.
Karl Steinar tekur við starfinu af Ásgeiri Karlssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni sem verður daglegur stjórnandi greiningardeildar ríkislögreglustjóra.